Ég verð eiginlega sökum míns stranga uppeldis með guðhræðslu og góðum siðum að byrja á því að útskýra titillinn á færslunni. Hann er tilkominn eftir reynslu mína af síðustu færslu. Þar var fjallað um kynlíf ellilífeyrisþega í Bretlandi. Þar sem ég er vanur að meðaltali tveimur lesendum á dag á bloggsíðu minni, kom það mér alveg í opna skjöldu að mörg hundruð lesendur kíktu á þessa gjörsamlega vita gagnlausu og heimskulegu færslu um enn heimskulegra efni! Hvað varðar mig um kynlíf breskra gamalmenna? Tengingin við þessa nauðaómerkilegu uppfyllingarfrétt og von um krassandi svalllýsingar, hefur sjálfsagt eitthvað að gera með þessar ofurvinsælir mínar að gera svo þið vitið að ég ofmetnaðist ekkert. Staðreyndin er semsagt sú að kynlíf, ofbeldi og Icesave selur. Það eina sem minnir á þetta sukk allt saman í þessari færslu er hinsvegar titillinn, því restin fjallar um sauðfjárrækt í Skefilstaðahreppi til forna. Nei annars, það tekst örugglega einhverjum að snúa því upp í klám. Nei nú er stefnan tekin á 5 lesendur á dag. En að öllu gríni slepptu þá er ég í miðju rannsóknarverkefni á Facebook. Hvar nær maður betri þverskurði af fólki en nákvæmlega þar. Vegna þess að ég er atvinnubullari hef ég farið hamförum á Facebook og bullað þar eins og annarsstaðar. Hlegið mig máttlausan af statusum annara eins og "er að steikja kleinur" og "búin að snúa þeim við". Að maður tali nú ekki um "ég er víst alveg frábær" statusum, sem fólk með dapurt sjálfsmat notar gjarnan, til að upphefja slæma samvisku og annað sem forgörðum fer, og ég verð að minnast á hjón sem skrifast á í gegnum statusa hvors annars sitjandi kannski í sama stólnum á víxl. Það toppar allt og ein besta birtingarmynd þessarar gagnlausu iðju að lifa lífinu opinberlega. Ég er þeirrar skoðunar að fólk taki sig sjálft fullalvarlega. Við erum öll fífl á einhvern hátt. Ég er til dæmis algert fádæmafífl og það sem meira er, að það er fullt af fólki tilbúið í að skamma mig fyrir það. En þá að þessari bjánalegu tilraun minni. Statusar mínir hafa verið allavega, vitnað í djúp spakmæli meistara og skálda....yfirleitt engin viðbrögð. Skrifi ég hinsvegar "er að fara á klósettið" eða "er að fara í myndatöku hjá Playgirl" þá fæ ég skammir fyrir hverslags andskotans fáviti ég geti verið! Þá tók ég mig til og stofnaði hóp með nafninu "Get ég fengið að vera hálfviti í friði?" og sendi vinum mínum boð. Ég vildi eingöngu kanna hverjir taka sig alvarlega og hverjir ekki í mínum vinahópi....Innan þriggja klukkustunda voru komnir 500 aðdáendur! Ekki nema brot af því mínir vinir, því þeir vilja margir halda áfram að skamma mig í gegnum mailið yfirleitt sem betur fer...Það gleðilega sem kom út úr þessari vísindalegu rannsókn er að það eru til miklu fleiri fífl en ég! Þá ætla ég ekki að fara út í hversu mikil fífl þetta eru, en mörg eru þau...og langar út úr skápnum!
Gulli litli vill vera vitleysingur.....í friði..
P.S. Þetta er síðasta klámfærslan mín.....ég lofa!
Athugasemdir
Við þessu er aðeins eitt svar; "saltkjöt og baunir, túkall!"
Axel Jóhann Hallgrímsson, 17.2.2010 kl. 12:14
Axel; Saltkjöt og baunir, sjöþúsundogfimmhundruðkall eftir hrun...
Gulli litli, 17.2.2010 kl. 12:33
Ég er ánægður með þessa niðurstöðu Gulli, að það séu miklu fleiri fífl en þú til í heiminum... ég er nýbúinn að uppgötva þetta á sjálfum mér... samt er ég rosalegt fífl...
Ef það eru 6 milljarðar (eða eru þeir kannski orðnir 7 ?) jarðarbúar sem nú lifa á þessum hnetti... og eiginlega allir fífl... hvar heldur þú að við séum í röðinni ? þ.e. hvað eru margir sem eru meiri fífl en við ???
Brattur, 18.2.2010 kl. 00:09
Brattur; Ég veit ekki um þig, en ég veit að ég vermi eitthvað af efstu sætunum, þannig að eitthvað á milli 6 og 7 milljarðar fólks eru minni fífl en ég! Maður getur ekki verið bestur í öllu en í þessu er ég helvíti góður þó ég segi sjálfur frá!
Gulli litli, 18.2.2010 kl. 09:06
Gulli !! Ég held að þú sért lang mesta fíflið , ég kemst allavega ekki með tærnar þar sem þú ert með hælana........þú ert mestur.
Kv Röggi
Röggi (IP-tala skráð) 18.2.2010 kl. 15:35
Röggi; Þú ert gott fífl....en ég er meira fífl....reyndu ekki að keppa við mig í því og hana nú!
Gulli litli, 18.2.2010 kl. 15:38
Ég læt mér ekki einu sinni detta það í hug !!!!!!!
Röggi (IP-tala skráð) 18.2.2010 kl. 17:08
Þó þú takir þátt í öllum júróvisjónkeppnum veraldar...
Gulli litli, 19.2.2010 kl. 22:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.