Þar sem það raskaði verulega heimsfriði og bloggheimar fóru á hliðina yfir síðustu færslu minni ákvað ég að taka mig saman í andlitinu(eða því sem eftir er af því) og ljúga satt núna. Sannleikurinn er sá að það gerist aldrei neitt í lífi Gulla litla. Talandi um Gulla litla, hann er jú sá eini sem ég hef smá þekkingu á og sá eini sem verður fyrir öllum þessum lygasögum og þolir að verða fyrir þeim, og sá eini sem hefur ekkert orðspor að verja. Afi minn Skafti var lítill vexti, en andlegur risi og húmoristi. Hann er höfundurinn að vörumerki mínu Gulli litli. Tólf ára var ég vaxinn honum yfir höfuð en það breytti engu, ég var Gulli litli! Þegar ég var kominn undir fertugt, höfðinu og herðunum hærri en hann, var ég enn Gulli litli. Þegar hann dó nærri 91 árs gamall, var ég enn Gulli litli. Mér þykir afar vænt um þessa nafngift og nota hana hvenær sem tækifæri gefst, en sannleikurinn er sá að ég er bara tæplega meðalmaður að hæð, greind, þroska og útlits. En ég nota þetta til að gera mig mikinn og langt til Húsavíkur. Svona fara bloggin hjá manni þegar maður er ekki tilbúinn með efni í blogg.....og ert undir meðallagi greindur, með athyglisbrest og langar að verða stór......jæja eru ekki allir í stuði? Annars man ég eftir því þegar ég var lítill...þá meina ég pínulítill, að ég var afar óánægður með nafnið mitt. Það er ekkert hægt að uppnefna mann þegar maður heitir Gulli litli. Eins og t.d. Erna ferna, Óli drjóli, Jónína .......uhh...tjónína, Arnar barnar og þar fram eftir götunum. En Gulli...pulli? Ég hallast að því að ég sé svona skemmdur út af því að ég var aldrei uppnefndur þegar ég var lítill.....minni. Talandi um minni...ég heyrði einn segja um daginn að hann vantaði stærra minni í tölvuna sína.....stærra minni? verður maður ekki að ákveða sig hvort það er stærri eða minni? Er nokkuð sektað fyrir að bulla svona?...hálfblankur þið skiljið...
Gulli litli stærri minni.....Verið væn við hvort annað og notið helgina til að uppnefna mig..
Athugasemdir
Gulli óbrigðuli.
Annars datt mér fyrst í hug Gulli bulli.
Anna Einarsdóttir, 12.2.2010 kl. 16:11
Ert kannski betra að segja Gulli óbrigð ulli ?
Annars uppnefndi ég systur mína, talsvert yngri, í gamla daga með því að segja;
Stína, pína, appelsína... sú litla svaraði að bragði Gilli, pilli epli
Brattur, 12.2.2010 kl. 19:21
Hvernig hljómar Gulli pulli apríkósa?
Gulli litli, 14.2.2010 kl. 09:27
Þarna er það komið... apríkósa rjómasósa...
Brattur, 14.2.2010 kl. 11:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.