Það er vor í lofti..og ég er fé..

               Þvílík andskotans þrengsli og þrýstingur úr öllum áttum. Hjarta mitt á erfitt með slátt. Rakinn er næstum óbærilegur. Myrkrið er algert. Hitinn er reyndar notalegur. Eitthvað segir mér að ég verði að komast úr þessu. Þó finnst mér ég vera nokkuð öruggur. Það er mestur þrýstingur neðan undir fætur mínar og  ég hef það á tilfinningunni að áfram sé einmitt áttin sem ég á að fara. Samt hef ég auðvitað ekki hugmynd um það. Það eru einhverjir hnúðar á hausnum á mér sem tefja mjög för mína. Þeir þrýstast upp í loftið sem er gljúpt eins og reyndar veggir og botn. Mér finnst eins og ég þurfi að anda en ég veit auðvitað ekki hvað “að anda” er,  því það hef ég ekki prófað. Þörfin er mikil en að opna munn er eitthvað sem er ekki möguleiki eins og er. Framskankarnir liggja undir höku og torvelda henni í þrengslunum niður að ganga. Sársaukinn er töluverður í hökunni því bein skankanna eru hörð og í þrengslunum eru beinin verulega “ pússí “. Heilinn í mér er eins og óátekin hljóðspóla, þar er nákvæmlega ekkert! En virknin er eins og í diktafón, það fer eitthvað inn en ekki mjög auðveldlega út allavega ekki svona fyrst um sinn. Þrýstingurinn undir mig eykst jafnt og þétt og verður óbærilegur á svona þriggja mínútna fresti. Svo hjaðnar það lítillega en samt er þrýstingurinn verulegur. Veggir kringum höfuð og búk eru eins og þeir séu kvikir, þar er þrýstingurinn alltaf sá sami. Mér finnst ég þokast áfram millimetra í einu í þessum þrýstingshryðjum en ég hef ekki hugmynd um hvert. Mig langar að spyrja en mér er meinað um mál. Það er líka aldeilis óvíst að einhver gæti svarað mér hvað þá að einhver heyrði. Þessi gangur getur ekki verið endalaus, hann hlýtur að taka enda. Það er eitthvað fast við maga minn. Því fylgir sársauki. Hér  er einhver lykt, ég finn hana þó nasir mínar séu lokaðar með einhverju. Lyktin er eins og bragðið í munni mínum, já , nú veit ég , blóð! Allt lyktar og bragðast sem blóð. Skildi einhver vera slasaður? Ég finn víða til en ég held að líkami minn sé nokkuð óskaddaður. Ég sé ekkert og það sem ég heyri hljómar mjög undarlega. Eins og garnagaul eða einhver neðansjávarhljóð. Ég legg við hlustir. Hvar er ég eiginlega? Nú kemur ægileg hryðja, æ, djö…skyldi eiga að drepa mann. Í huga mér sé ég fyrir mér  ógnvekjandi pyndingasérfræðinga standa og hlæja að kvölum mínum. Þessi voðalega hryðja þrýsti mér lengra en nokkur fyrri hafði gert. Ég er í þann veginn að leggjast saman svei mér þá. Og önnur, strax á eftir. Nú er eitthvað að gerast. Skyndilega fer ég kollhnís, fæ slink og í leiðinni, allar fyrri þjáningar og þrýstingur út í veður og vind. Mér er svo létt en þetta er samt svo skelfilegt. Og kuldinn! Ég fyllist öryggisleysi. Ég get enn ekki andað. Ég sé ekkert enn. Það er eitthvað fyrir augum mínum. Þrýstingurinn farinn, mér finnst ég vera að springa út. Öfgarnar í hina áttina. Trýnið mitt. Einhver er að eiga við nefið mitt. Nú smýgur súrefni niður í lungun, kalt og nístandi. Ég anda ótt og títt til að prófa. Hægra augað opnast, vá allt grænt! Ég píri. Vinstra opnast, ég blindast og loka aftur. Það er eldur. Ég ætla að hafa það lokað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband