Færsluflokkur: Bloggar
Ég og nærri 7 ára dóttir mín fórum núna áðan í göngutúr út í skóg. Við fórum að leita okkur að könglum og greinum og allskonar dóti til að nota í jólaföndrið. Dóttur minni þótti alger óþarfi að fara langt inn í skóginn og stóð greinilega örlítill stuggur af skóginum. Eftir örlitlar rökræður um að Rauðhetta og úlfurinn hefði gerst í útlöndum, fékkst hún til að labba aðeins inn í skóginn. Fundum við ýmislegt í jólaföndrið sem við tókum til handagagns.
Á leiðinni heim fór ég að velta fyrir mér að það er raunar ekkert skrítið að fólk hafi smá beyg af þéttum skógi. Maður þarf ekkert að óttast á Íslandi því þar reisir maður sig bara upp ef maður villist. Mig undrar ekki öll ævintýrin sem orðið hafa til í kringum dimma skóga. Ég minni bara á ævintýrið þar sem allir fóru heim til Hans og grétu. Sama má segja um hinar íslensku draugasögur. Maður þarf ekkert að vera hissa á þeim þegar maður að vetralagi kemur inn í gamla torfbæi. Garún og djákninn á Myrká. Skerííííííí...........úhúhú...Nú man ég bara ekki hvað ég ætlaði að blogga um....
Gulli pulli.
Bloggar | 30.11.2008 | 13:58 (breytt kl. 14:37) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Grunaður fjöldamorðingi hyggst gefa út plötu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 26.11.2008 | 12:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Nágranni minn Ole fór, ásamt konu sinni Jette, til Íslands í sumar sem túristi og er mjög áhugasamur um land og þjóð. Áður en hann fór var hann búinn að rekja úr mér garnirnar og sérstaklega um líf til sveita á landinu bláa. Hann er sjálfur mjög áhugasamur hobby bóndi og þá sérstaklega um fjárbúskap. Þegar kemur að fjárbúskap eru íslendingar á heimavelli, það er að segja ef við erum að tala um fé á fæti. Það fer mjög misjafnt orðspor af okkur sem fjárgæslumönnum í bönkum og öðrum viðskiptum. Þó féð komi rýrt úr bönkum kemur það vænt af fjalli. Ole sem sagt vildi vita allt um íslensku sauðkindina. Ég gerði mitt besta til að svara honum eftir bestu getu og þekkingu úr uppeldinu sem á sínum tíma beindist að því að verða sauðfjárbóndi á Skaga, en endaði sem auðnuleysingi í Danmörku. Ég talaði fjálglega um matarvenjur okkar íslendinga og sérstaklega það að við borðuðum sauðkindina upp til agna. Þar væri ekkert undanskilið, augu, eyru, munnur, tunga og nef og auðvitað karlmennskustolt hrútanna, eistun. Fór ég stórum orðum um bragðgæsku hrútspunga sem er auðvitað engin lygi. Þetta fannst Ole afar athygli vert og var þetta rætt nokkru sinnum yfir öli og mat. Nema nú á dögunum kemur téður Ole til mín og segist vera að slátra og spyr hvort við höfum áhuga á lambakjöti. Þó dilkurinn væri ekki af Skaganum, ákváðum við samt að kaupa einn skrokk. Tveimur dögum seinna fæ ég þau skilaboð frá Ole að ég geti komið og sótt kjötið. Dýrindis lambakjöt sem leit út fyrir að vera mjög svipað íslenska útlits, en seinna kemur í ljós hvernig bragðast. Þegar ég er búinn að bera kjötið út í bíl og er að fara kallar Ole; bíddu aðeins, það er meira. Hann kemur hlaupandi með plastpoka og segir; heyrðu, ég hirti þetta fyrir þig. Ég kíkti í pokann og hann var fullur af eistum og þá meina ég ekki frá Eistlandi. Mér láðist að segja Ole að pungarnir væru súrsaði áður en þeir eru étnir. Ég þakkaði samt og brosti....Enn og aftur fékk ég bágt fyrir minn símalandi munn...
Gulli litli ofurpungur...
Bloggar | 21.11.2008 | 13:44 (breytt kl. 13:52) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Ég sem persóna hef ótal kosti. Svo ég nefni eitthvað, þá er ég víst alveg frábær í að......tja....svo er ég býsna góður í....hm......ja ég man ekki eftir neinu í augnablikinu, enda ætlaði ég ekki að tala um kosti mína heldur ókosti og galla, en þeir eru tveir; allt sem ég segi og allt sem ég geri. Svo við byrjum nú á öllu því sem ég segi, þá hef ég stundum fengið á baukinn fyrir yfirlýsingar mínar. Nýjasta kjaftshöggið er varðandi vinnufélaga minn einn sem heitir því hógværa nafni Daniel Stjerne. Við höfum rætt mikið um aðaláhugamál mitt sem er eins og þeir sem mig þekkja vita, tónlist. Ég hef verið þeirrar skoðunar að allir geti búið til tónlist og allir geti sungið. Hef ég talað um þetta eins og ég hefði alla heimsins þekkingu á mínum herðum. Daniel (pop)Stjerne hafði efasemdir um að hann hefði "evne" til að syngja. Ég sannfærði hann um að hann eins og allir aðrir gæti sungið, með þeim afleiðingum að nú syngur hann nonstop með útvarpinu við vinnuna! Það sem hefur fengið mig til að efast um að ég hafi rétt fyrir mér í máli þessu er að hljóðin og tónarnir sem hann gefur frá sér eru aldrei í nágrenni við hina réttu tóna. Þegar börn syngja falskt finnst mér það skemmtilegt og fallegt. En þegar fullvaxinn tvítugur karlmaður syngur hástöfum allan liðlangan daginn án þessa að koma í nágrenni við réttan tón þá er mér nóg boðið....og segi því; herrar mínir og frúr....það geta EKKI allir sungið!
Gulli kostakarl...
Bloggar | 19.11.2008 | 13:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Mottóið í dag er, verum góð hvort við annað. Það þýðir að við eigum að vera góð við okkar elskulegu og gjörsamlega óspilltu stjórnmálamenn, okkar fingralöngu einkaþotu fljúgandi fjárglæframenn, blessuðu og háheilögu fyrrverandi stjórn Kaupþings sem gaf sjálfri sér nokkra miljarða, Davíð konung seðlabankaklessu, Bubba Morthens fyrrverandi Range Rover eiganda og núverandi verkalýðsskrumara sem ekki á lengur fyrir dýrustu laxveiðiám landsins, nei ég segi bara svona......Svona líður mér eftir einn íslenskan fréttatíma. Mér er sagt að ég eigi að vera góður við alla. En vitið þið, það eru nokkrir sem ég væri til í að kjöldraga....Jafn friðsamur og fallegur sem ég er nú. Hversu lengi á þessi þjóð að sitja prúð og brosa sínu falska fjallkonubrosi.......Er ekki kominn tími á gúttóslag?
Keep on rockin
Gulli Gúttó
Þetta með rokkið kom bara vegna þess að ég var að horfa á fræðsluþátt um Joe Strummer..
Bloggar | 8.11.2008 | 00:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
við furðufuglana um borð! Gjóður er annars afar athyglisvert nafn...
Gulli litli fyrrverandi furðufugl og núverandi fífl..
Sjaldgæfur fugl um borð í Arnari HU | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 26.10.2008 | 11:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Á dögunum fékk ég mail frá vini mínum uppi á landinu bláa, eftir að ég hafði spurt hann hvernig "Kreppa frænka" færi með hann. Hann sagði mér að gömlu pikköpp línurnar "ég er hluthafi í banka" eða "ég er bankastarfsmaður" hittu ekki lengur sálu né virkuðu nokkurn skapadann hlut. Hann var búinn að finna nýja pikköpp línu sem virkar. Hún er svona; "Ég er ríkisstarfsmaður". Segiði svo að allt sé ekki breytingum háð...
Gulli ríkisstarfsmaður...
Bloggar | 23.10.2008 | 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Er tómur í hausnum og ætla í stutt bloggfrí.......
Gulli litli
P.S. Takk þið sem nenntuð að lesa..
Bloggar | 15.10.2008 | 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
Það er orðið langt síðan ég hef montað mig er það ekki? Er ekki kominn tími á smá mont? Ég verð.
Við rúmlegavísitölufjölskyldan skelltum okkur á frumsýningu á barnaleikritinu Jacks mareridt. Verkið fann sér stað í leikhúsinu í Tivoli Friheden í Aarhus. Dóttir okkar til rúmlega sextán ára Laufey Sunna Guðlaugsdóttir leikur þar eitt af aðalhlutverkunum eða sem borgarstjórinn í þessum halloween bæ. Þetta er hryllingsbær þar sem afturgöngur, vofur og svipir leika lausum hala. En jafnvel þó maður hafi atvinnu af að hræða fólk og jafnvel deyða þá verður að gera það, eins og annað, með kærleik. Leikritið snýst um hvernig Graskerskóngurinn finnur kærleikann og ástina innan um allann hryllinginn, eftir heimsókn tveggja barna úr mannheimum. Leikararnir stóðu sig vel og öll umgjörð og sviðsmynd fannst mér frábær (og ég er eiginlega alveg hlutlaus)
http://www.friheden.dk/underholdning/halloween/jacksmareridt/
http://www.themeparkdenmark.dk/nyhed.php?id=841
Jafnvel þó maður sé einn af aðalleikurunum þarf maður samt að borða í pásunni!
Gulli montrass.
Bloggar | 12.10.2008 | 12:27 (breytt kl. 18:33) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Maður er auðvitað gráti næst vegna þess hvernig er komið fyrir þjóðinni. Getur það virkilega gerst að 20-30 flugríkir einstaklingar geti komið rúmlega 300 þúsund manna þjóð á vonarvöl? Nota bene, þjóðarbúið sjálft skuldar lítið sem ekkert. Þurfum við meðaljónarnir að hysja upp þessa smástráka? Af hverju? Hvað gerðu þeir fyrir okkur þegar þeir höfðu fullt rassgat af peningum?
Ég get ekki annað en dáðst af Geir H Haarde. Hann hefur ekki sofið sólahringum saman. Hann virðist vinna ákaflega fumlaust. Þó hann kalli einhvern fréttamann fávita! Ég meina getur ekki bara verið að hann sé fáviti? Allavega sér maður ekki svitadropa koma undan húfunni sem hann bar daglega.
Ég veit að það breytir engu þó að ég reyni að segja eitthvað. Ég er bara með í maganum yfir þessu öllu. Og ekki á ég neina peninga til að hafa áhyggjur af. En við verðum að hugsa um eitthvað jákvætt líka. Ég hef enga frétt séð um kartöfluuppskeruna í Þykkvabæ þetta árið?
Bölmóður Hjaltason..
P.s. Rís þú unga Íslands merkikerti!
Bloggar | 10.10.2008 | 12:00 (breytt kl. 12:01) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)