Harmsaga viðskiptaævi minnar.....

Ég er búinn að sjá það að ég er vel hæfur til að stýra banka......Nú fær einhver hroll, ég veit það. Því saga mín í viðskiptum er ekki glæsileg. En miðað við Björgólf sem tapaði nærri hundrað þúsund milljónum(ég veit ekki hvað það eiga að vera mörg núll í þessu) á sínum síðustu viðskiptasjónhverfingum, þá....ja þá þarf ég engan kinnroða að bera. Nú ætla ég í næstu 56 bloggfærslum að reyna að koma í stafi svona helstu afrekum mínum á viðskiptasviðinu í von um góða stöðu, með sæmilegum bónusum fyrir klúður. Í júní 1965 vann ég minn fyrsta stórsigur í bissnes og hefur ekki fölva slegið á þá sigurgöngu síðan. Þá var mér skotið sem ómálga barni inn í kristna trú. Það sem meira er...að ég var ekki spurður álits. En trúmál, það er aftur annar bissnes. En aftur að afrekum mínum í viðskiptalífinu. Afi minn í móðurætt gaf viðskiptajöfrinum 500 krónur í skírnargjöf, inn á sparisjóðsbók í Landsbankanum. Þetta voru mikil auðæfi þá er mér sagt. 1982 tók ég þessa summu út hugðist leggjast í fjárfestingar og fyrirtækjayfirtökur. Er skemmst frá því að segja að höfuðstóllinn plús vextir í 17 ár, dugðu fyrir kókflösku og pylsu...með öllu. Eftir þetta lá leiðin bara beint uppá við. Fyrir fermingapeningana 50 þúsundir gamlar og góðar íslenskar krónur var keyptur forláta Moskwish 1967 árgerð með bilaðan annan gír og bremsulaus. Þetta var eðalfjárfesting sem hefði í dag verið boðleg hvaða skattaskjóli sem er. Moskinn bar beinin í Skefilstaðahreppnum, eftir að hafa molnað eins og kristalvasi, við það eitt að renna lúshægt á húsvegginn vegna bremsuleysis. Það voru mörg kíló af gæðaefninu P-38 sem var sópað upp undir eldhúsglugga móður minnar, af skömmustulegum viðskiptarisa, undir vökulu fjármálaeftirliti mömmu og með einu pennastriki var fjárfestingin afskrifuð úr reikningum félagsins. Seinna á lífsleiðinni átti ég marga góða spretti í skjótfengnum gróða, þénaði mikið neikvætt eigið fé í bílabraski. Komum seinna að því. Með því að moka flórinn óaðfinnanlega í langan tíma fékk ég svo leyfi móður minnar til að kaupa skellinöðru. Nú skildi grætt. Suzuki ac 50 fákur, alveg ljómandi ljótur kom hóstandi í hlað. Fegurðin er ekki allt. Ég sá þarna gott tækifæri á að lappa græjuna upp og græða svo mikið að mamma myndi aldrei minnast á rússnesku Moskagróðamaskínuna mína framar. Sem minnir mig á það já......Súkkan er líklega enn í hlöðunni heima. Nú þyngdist heldur róðurinn við að sannfæra hluthafa um mína fjárfestingastefnu og hafnaði kjölfestufjárfestirinn mamma mín, algerlega sérþekkingu minni á viðskiptum. Ég náði þó í gegn einum bulletproof díl. Ég keypti rafsuðutransara. Fór á suðunámskeið að Hólum í Hjaltadal til að fullkomna dílinn og komst að því þar að rafsuðutransarar væru komnir á Þjóðminjasafnið innan um rokka og strokka, því allir notuðu argonsuður nú. Sem minnir mig svo aftur á það að ég krafðist þess að keypt yrði forláta Beta vídeótæki á heimilið til framtíðar, en ekki VHS, því Beta tækið væri augljóslega komið til að vera til framtíðar með fjögur græn ljós en hitt bara tvö. Þeir sem eldri eru en tvævetur, vita hvernig það þróaðist. Skildu nú leiðir okkar mömmu fljótlega í viðskiptum því hún vissi auðvitað ekkert um alvöru bissness. Lagði bara inn og tók út hjá KS. Eftir langan lista af vel misheppnuðum viðskiptum, sem er of langt mál að telja upp hér, komst ég loksins í afburða góða inntekt á neikvæðu eiginfé. Nú var svo komið að ég gat valið úr. Ég stóð á krossgötum. Valið stóð á milli þess að kaupa vöruflutningabíl eða kaupa trillu! Ég með mitt afburða viðskiptanef sá það langar leiðir að bátaútgerð var gamaldags og hallærisleg og til þess fallin að maður gæti átt það á hættu að fá úthlutaðan kvóta og verða sterkefnaður kannski. Vöruflutningabransinn varð ofan á og græddust mér ótrúlegar upphæðir, og óð uppundir hendur í neikvæðu eiginfé, þökk sé skipafélögum landsins og auðvitað afburðaþekkingu undirritaðs á viðskiptum. Sökum bankaleyndar verður ekki upplýst hversu miklu fé var varið í þessa hugmynd. Förum nú hratt yfir sigurgöngu Gulla litla í viðskiptum og stiklum á stóru. Árið 2007 sá gúrúinn fram á að hann væri að missa af lestinni og sá sig tilneyddann að skella sér í fasteignaviðskipti í Danmörku. Heimsyfirráð eða dauði. Hann var reyndar hokinn af reynslu úr þeim bransa eftir að hafa um árabil stundað fasteignaviðskipti........á Skagaströnd áður. Eignaumsýslufélagi Gulla litla í Danmörku var svo lokað um daginn og fasteignin seld og náðist þar enn inn töluvert neikvætt eigið fé. Ljóst er að tap Gulla litla er töluvert eftir langan veg og afburða kænsku í viðskiptum. En tap mitt samanlagt alla ævi með öllum mínum tilþrifum, kæmi ekki fram sem komma í bókhaldi Björgólfs. Er ekki sanngjarnt að Gulli litli fái nú eins og einn banka sér til eignar og ábúðar? Hugsa að ég yrði að leggja mig alveg sérstaklega fram til að ná í viðlíka tap og Bjöggi...

Ekki missa úr sigurgöngu Gulla Thor..


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: S. Lúther Gestsson

Nú Gulli minn sýnist mér að við eigum ekki ósvipaða sögu í viðskipum og langaði mig því að benda þér á að fara að öllu með gát þó vel gangi núna.

T.d myndi ég byrja á að skrá vespuna sem liggur í hlöðunni á eitthvert hlutafélag sem er einhverstaðar á Bahama eyjum.

Ekki getur verið að rafsuðu transinn sé skráður sem  eign í búi þínu í dag, ef svo er skaltu skrá hann ónýtann. 

Þetta er nú það helsta sem ég sé athugavert við bókhaldið eins og er.

Hafðu annars bara samband ef eitthvað er.

S. Lúther Gestsson, 7.8.2009 kl. 02:10

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Ég legg til að þú fáir alla Sparisjóði landsins til umráða.

Hrönn Sigurðardóttir, 7.8.2009 kl. 08:42

3 Smámynd: Gulli litli

S. Lúther: Við ættum kannski að spá í bissnes saman félagarnir...verður ekki mínus og mínus á endanum plús?

Hrönn: Ég legg til að þú fáir að ráða einhverju, skynsama kona....

Gulli litli, 7.8.2009 kl. 20:42

4 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Frábær saga Gulli, takk fyrir hana. Það verður aldrei svo svart að ljósið sé ekki alltaf beint framundan.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 7.8.2009 kl. 23:39

5 Smámynd: Gulli litli

Axel: Ég sé ljósið......næ því bara aldrei....

Gulli litli, 8.8.2009 kl. 14:57

6 Smámynd: Marta Gunnarsdóttir

Hef alltaf furðað mig á hvernig standi á að fólk með svona margslungið viðskiptavit fer alltaf úr landi. Ertu kominn til Tortola núna?

Marta Gunnarsdóttir, 8.8.2009 kl. 15:40

7 Smámynd: Gulli litli

Mart: Árið 2007 var það kallað útrás.....Búinn með Tortola og er í Tuborg núna.

Gulli litli, 8.8.2009 kl. 16:14

8 identicon

Gulli minn það er þér og þínum bissnes að þakka að ég er gift Jóni mínum í dag þar sem við byrjuðum saman í volvóinum þínum í Hvalfjarðargöngunum fyrir 10 árum síðan

Berglind (IP-tala skráð) 11.8.2009 kl. 14:17

9 Smámynd: Gulli litli

Berglind frænka; Gleður mitt gamla hjarta að ég hef þá einhverju góðu komið til leiðar......

Gulli litli, 11.8.2009 kl. 18:26

10 Smámynd: S. Lúther Gestsson

Gulli, það fer nú kannski tveimur sögum af því hversu góðu var komið til leiðar. Ha,ha,ha,ha,ha.

En þarna er viðskiptahugmyndin komin: Rómantískar kvöldferðir gegnum hvalfjarðargöngin.

Djöfull er ég fyndinn á annars kostnað.

S. Lúther Gestsson, 11.8.2009 kl. 18:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband